Innlent

Ósáttur hundaeigandi réðist á lögreglumann

Ósattur hundaeigandi í Reykjanesbæ réðist á lögreglumann eftir að hundur mannsins hafði verið tekinn í vörslu lögreglunnar. Tveir lögreglumenn meiddust í átökum við manninn sem gistir fangageymslu.

Lögreglumenn fóru í morgun inn í bílskúr í Reykjanesbæ til að fjarlægja hundinn. Eigandinn hafði farið í útilegu deginum áður og skilið hundinn eftir.

Fram kemur í tilkynningu að við lögreglumönnunum blöstu ömurlegar aðstæður. „Ekkert fóður né vatn var hjá hundinum og hland og saur á gólfinu. Fengust þær upplýsingar að hundurinn væri alltaf hafður í bílskúrnum og lítið sem ekkert sinnt."

Hundurinn var tekinn í vörslu lögreglunnar og mun embætti héraðsdýralæknis og Umhverfisstofnun fá málið til skoðunar.

Eigandi hundsins kom svo heim síðdegis og hafði samband við lögreglu þar sem hann var verulega ósáttur við að hundurinn hafði verið fjarlægður. Reynt var að útskýra málið fyrir manninum sem brást illur við og réðist á lögreglumann. Þurfti því að handtaka manninn og meiddust tveir lögreglumenn í átökum við hann og þurftu þeir að leita læknisaðstoðar.

Maðurinn gistir nú í fangageymslu og bíður yfirheyrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×