Innlent

Óttast höfundaréttagreiðslur vegna Baugsmyndbands

Valur Grettisson skrifar
Little Britain.
Little Britain.

„Það eru brot úr Little Britain í þessu og því urðum að taka myndbandið út," segir Kjartan Þór Þórðarson, framkvæmdarstjóri Saga Film en kvikmyndafyrirtækið lét fjarlægja umdeilt myndband sem sýndi Baugsveislu í Monaco út af Youtube. Þar mátti meðal annars finna grínatriði með leikurunum úr Little Britain þar sem þeir voru að gantast með auðmönnum.

Að sögn Kjartans eru þau atriði höfundavarin. Það mátti sem sagt ekki sýna þau opinberlega nema um það væri sérstaklega samið. Kjartan segir að ef myndbrotin séu sýnd opinberlega þá verður klausa virk um frekari greiðslur til Little Britain. Þær gætu orðið 20 falt hærri en upprunalega var kostað til.

„Þannig að við kipptum þessu út í gær um leið og við fréttum af myndbandinu," segir Kjartan en það var dótturfyrirtæki Saga Film sem gerði myndbandið umdeila.

Í því mátti meðal annars sjá Jón Ásgeir Jóhannesson í hlutverki flugmanns. Svo tók Tina Turner lagið auk þess sem Jón Ásgeir var dæmdur í X-Factor. Þá mátti sjá Hannes Smárason bregða fyrir.

Myndbandið fór eins og eldur í sinu um veraldarvefinn og á þriðja tug þúsund manns voru búnir að sjá myndbandið í gær. Ekki er vitað hver lak myndbandinu á vefinn.

Spurður hvort það komi til frekari aðgerða gegn þeim sem lak myndbandinu á netið segir Kjartan að svo verði ef Saga Film þarf að greiða fyrir birtinguna.

„Þá sækjum við viðkomandi til saka," segir Kjartan Þór ákveðinn.

Aðspurður hvort einhver hafi beitt hann þrýstingi um að taka myndbandið út segir hann svo ekki vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×