Íslenski boltinn

Austurrískur framherji til reynslu hjá FH

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Daniel Kastner gæti verið á leið í íslenska boltann.
Daniel Kastner gæti verið á leið í íslenska boltann.

Austurríski framherjinn Daniel Kastner er nú til reynslu hjá Íslandsmeisturum FH en þetta staðfesti Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, í samtali við Vísi.

Kastner er 27 ára gamall og hefur leikið bæði í austurrísku úrvalsdeildinni sem og í neðri deildunum þar. Hann lék til að mynda með Austria Salzburg og SV Reid í úrvalsdeildinni en síðast lék hann með neðrideildarliðinu SV Grödig.

Hann æfði einnig með enska liðinu Plymouth til skamms tíma árið 2007.

„Það var umboðsmaður sem við höfum verið í sambandi við sem benti okkur á þennan leikmann. Okkur leist ágætlega á hann og ákváðum að fá hann hingað til reynslu,“ sagði Heimir sem segir að það komi vissulega til greina að semja við  hann.

„Við munum spila æfingaleik við Stjörnuna á laugardaginn og ef hann stendur sig vel þar sem og á æfingum munum við skoða þann möguleika vel.“

FH hefur misst Jónas Grana Garðarsson til Fjölnis og Höskuld Eiríksson til KR og segir Heimir að FH þurfi breiðan leikmannahóp fyrir átök sumarsins.

„Ef allt gengur eðlilega hjá FH næsta sumar munum við væntanlega spila eitthvað um 30 leiki næsta sumar. Til að komast í gegnum það teljum við að við þurfum að styrkja leikmannahópinn.“

Spurður hvort FH hafi efni á erlendum leikmönnum í því efnahagsástandi sem ríkir nú sagði Heimir lítið vita um þau mál.

„Ég er bara þjálfarinn og kem ekkert nálægt fjármálunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×