Innlent

Skulda þjóðinni afsökunarbeiðni

Björgvin G. Sigurðsson Sér eftir því að hafa ekki komið Icesave í erlend dótturfélög. Fréttablaðið/Stefán
Björgvin G. Sigurðsson Sér eftir því að hafa ekki komið Icesave í erlend dótturfélög. Fréttablaðið/Stefán

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, segist sjá eftir því að hafa ekki gengið miklu harðar fram í því að koma Icesave úr útibúi Landsbankans á Íslandi yfir í erlend dótturfélög.

Þetta kemur fram í grein sem Björgvin ritar í Morgunblaðið í gær. „Okkur mistókst yfirlýst markmið um að koma Icesave í dótturfélag úr útibúum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá Landsbankann til þess. Þar hefðum við átt að ganga miklu harðar fram og því sé ég mest eftir af öllu á mánuðunum mínum í ráðuneytinu,“ segir Björgvin.

„Þá hefði fyrir löngu átt að vera búið að sameina bankamálin undir eitt ráðuneyti í stað þriggja og eftirlitið í eina sameinaða stofnun. Það hefði örugglega rofið vítahring samráðsleysis og óljósra skila á milli ábyrgðar og hlutverka í því viðkvæma viðfangsefni að tryggja fjármálalegan stöðugleika í samfélaginu.“

Björgvin segir að íslenska stjórnmálastéttin skuldi þjóðinni afsökunarbeiðni vegna þess að efnahagshrunið varð alvarlega hér á landi en víðast annars staðar vegna aðgerða og aðgerðaleysis stjórnmálamanna.

„Þar eru fáir undanskildir, hvorki þeir sem stýrðu samfélaginu frá miðjum tíunda áratugnum né aðrir sem börðust gegn því að skikki yrði komið á gjaldmiðilsmál þjóðar­innar,“ segir Björgvin. „Ég hef beðist afsökunar fyrir mitt leyti og undirstrika það hér.“

- pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×