Innlent

Unnu á facebook og twitter

„Verkamannaflokkurinn vann kosningabaráttuna á samskiptasíðunum Facebook og Twitter og á blogginu. Þó að það sé ekki rétt að kalla þetta nýja miðla er það nýtt fyrir okkur að nota þá í kosningabaráttunni á þann hátt sem við gerðum núna," sagði Jens Stoltenberg á blaðamannafundi í gær.

Að því er fram kemur á Aftenposten sagði forsætis­ráðherrann frá því með innlifun hversu ágætt honum þætti að vera í sambandi við kjósendur sína í gegnum Facebook. Hann sagðist þó ætla að láta sérfræðingum það eftir að greina hversu mikil áhrif kosningabaráttan á netinu hefði haft.

Aftenposten greindi frá því síðastliðið vor þegar Verkamannaflokkurinn hélt landsfund sinn að Stoltenberg hefði sérstaklega hvatt liðsmenn Verkamannaflokksins til að nota samskiptasíður í kosningabaráttunni. Sjálfur er Stoltenberg mjög virkur á Twitter og uppfærði stöðuna sína til dæmis á kosninga­nótt þegar hann sagðist vera að fylgjast með talningu atkvæða: „Verkamannaflokkurinn bætir við sig fylgi. Spennandi að sjá hvort meirihlutinn heldur velli," sagði í færslunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×