Innlent

Segir fjármálaráðherrann hygla fjármagnseigendum

Eygló Harðardóttir furðar sig á afstöðu Steingríms.
Eygló Harðardóttir furðar sig á afstöðu Steingríms.
„Steingrímur J. Sigfússon passar auðvaldið," segir Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins. Eygló segir að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafi ákveðið að færa niður skuldir VBS og Saga Capital um 8 þúsund milljónir króna með því að bjóða þeim vexti sem séu langt undir því sem öðrum fyrirtækjum og hvað þá einstaklingum bjóðast.

„Þessi sami Steingrímur hefur úthúðað Framsóknarmönnum fyrir að dirfast að leggja til að húsnæðislán almennings verði færð niður sem nemur verðtryggingu og/eða gengisbreytingum síðustu mánaða," segir Eygló á vefsíðu sinni. Hún bendir jafnframt á að Steingrímur sitji í ríkisstjórn með Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hafi kallað tillögur Framsóknarflokksins stærstu millifærslu fjármagns frá einstaklingum til fyrirtækja sem sögur fari af.

„Ef almenningur, með 20 ára húsnæðislán á 4,5% vöxtum fengi sömu kjör og þessir fjárfestingabankar, það er að segja endurfjármögnun á 2% vöxtum, jafngilti það að húsnæðislánin væru færð niður um 20%," segir Eygló og spyr hvort talan sé ekki nokkuð kunnugleg.

Eygló segir að Steingrími og Jóhönnu þyki ekkert sjálfsagðara en að borga niður lán fjárfestingabanka og annarra fjármagnseigenda. Þau telji það hins vegar svo fáránlegt að færa niður fasteignalán almennings að það þurfi ekki einu sinni að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×