Innlent

AGS-yfirlýsingu breytt vegna Icesave

Nokkrum dögum áður en skrifað var undir samning um lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands var gerð breyting á viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til sjóðsins og sérstaklega hnykkt á því að Íslendingar hétu að standa við allar skuldbindingar sínar á grundvelli innistæðutryggingasjóðsins.

Davíð Oddsson og Árni M. Mathiesen undirrituðu uppfærðu viljayfirlýsinguna 19. nóvember, sama dag og lánið var samþykkt, eins og þá fyrri 3. nóvember.

Eftirfarandi setningu var bætt inn í 9. lið uppfærðu yfirlýsingarinnar: „Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutrygginga­kerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum."

Nauðsynlegt var að herða á orðalaginu til að samningar næðust um lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, samkvæmt heimildum blaðsins. Það er í samræmi við yfirlýsingar Geirs H. Haarde og Steingríms J. Sigfússonar, um að samningar um Icesave-reikningana væru forsenda lánafyrirgreiðslu frá AGS.

Franek Rozwadowski, sendifulltrúi AGS, sagði hins vegar í fréttum útvarps í gær að það mundi ekki hafa áhrif á fyrstu endurskoðun AGS-áætlunarinnar ef Alþingi myndi fella frumvarpið um ríkisábyrgð vegna Icesave-lánsins. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×