Erlent

BBC sektað fyrir frámunalegan dónaskap

Óli Tynes skrifar
Andrew Scachs (th) lék þjóninn Manuel í Fawlty Towers.
Andrew Scachs (th) lék þjóninn Manuel í Fawlty Towers.

Breska fjölmiðlaeftirlitið hefur sektað BBC um 150 þúsund sterlingspund fyrir frámunalega dónaleg símtöl í einum af útvarpsþáttum stöðvarinnar. Sektin er um 26 milljónir króna.

Tvær af stjörnum BBC, sjónvarpsþáttastjórnandinn Jonathan Ross og grínistinn Russel Brand hringdu í farsíma leikarans Andrew Sachs og skildu þar eftir dónaleg skilaboð.

Meðal annars sögðu þeir að Brand hefði sofið hjá hinni 23 ára gömlu Georgínu Baillie sem er barnabarn Sachs.

Sachs er einkum þekktur fyrir að leika þjóninn Manuel í gamanþáttunum Fawlty Towers.

BBC bárust yfir 40 þúsund kvartanir yfir þessu tiltæki. Það varð til þess að Brand var rekinn, útvarpsstjóri Rásar 2 sagði af sér og Ross var vikið frá störfum kauplaust í tólf vikur.

Bæði BBC og þáttastjórnendurnir báðu Sachs afsökunar og hann tók þeirri afsökunarbeiðni.

Fjölmiðlaeftirlitið sagði hinsvegar að brotið hefði verið svo ruddalegt að ákveðið hefði verið að beita BBC stórri sekt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×