Innlent

Ökufantur bar við minnisleysi þegar hann ók á par

Klessti framan á par og bar við minnisleysi. Mynd tengist frétt ekki beinlínis.
Klessti framan á par og bar við minnisleysi. Mynd tengist frétt ekki beinlínis.

Karlmaður á fertugsaldri var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu refsingar í tvö ár frá niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Maðurinn var dæmdur fyrir að aka undir áhrifum þunglyndis- og svefnlyfja auk áfengis, yfir á öfugan vegarhelming við Straum við Bröndukvísl, þar sem hann ók beint framan á bifreið pars sem þar átti leið hjá. Slysið átti sér stað í desember 2007.

Áður en það átti sér stað ók hann á húsnæði bensínstöðvarinnar N1 í Ártúnsholti. Sjálfur ber maðurinn við minnisleysi varðandi áreksturinn á parið.

Konan slasaðist verr en unnusti en samkvæmt læknisvottorði hlaut hún vægt samfallsbrot á þriðja lendarhrygg, tognun á hálsi auk þess sem hún marðist. Þá þurfti hún að dvelja á spítala í tvær vikur. Unnusti hennar fékk bakverki sem höfðu áhrif á nám hans en hann lagði stund á smíði. Sjálfur var hann óviss hvort hann þyrfti að hætta námi sökum meiðslanna.

Maðurinn játaði greiðlega vegna hlut ákærunnar varðandi árekstur við bensínstöðina en neitaði að hafa, sökum ónógrar aðgæslu, verið valdur að árekstrinum við bifreið parsins og þeim meiðslum sem parið hlaut.

Að auki vildi ökufanturinn meina að karlmaðurinn, sem ók bílnum, bæri sjálfur hlut að ábyrgð vegna slyssins. Dómari var ekki sammála því og fann manninn sekan um alvarlegt brot á umferðarreglum og að hafa sýnt af sér stórfellt gáleysi.

Var því niðurstaða dómsins að maðurinn greiddi parinu fimm hundruð þúsund krónur samanlagt, auk málskostnaðar þeirra beggja. Þá þarf maðurinn að greiða 160 þúsund krónur í sekt auk þess sem hann er sviptur ökuleyfi í tvö ár.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×