Lífið

Allan sóma stunda ber

Soffía frænka er mætt. Edda Björg Eyjólfsdóttir í skrúða. Mynd/Eddi
Soffía frænka er mætt. Edda Björg Eyjólfsdóttir í skrúða. Mynd/Eddi

Frumsýning á sviðsetningu Selmu Björnsdóttur á Kardemommubænum er á laugardag. Nær uppselt er á fjörutíu sýningar og verður þetta vinsæla verk Torbjörns Egner sýnt fyrir fullu húsi allt þar til leikarar Þjóðleikhússins fara í sumarleyfi. Uppselt er á þrjár forsýningar í þessari viku og nýttu margir sér tilboð Þjóðleikhússins til atvinnulausra en stofnunin hefur nú gefið út svokölluð samstöðukort sem veita atvinnulausum kost á ókeypis aðgangi að sýningum Þjóðleikhússins. Kristrún Heiða Hauksdóttir segir kortin hafa flogið út og hafi móttökur verið afar góðar. Margir úr hópi þeira sem misst hafa vinnu nýttu sér tilboð á forsýningar á Kardemommubænum.

Þjóðleikhúsið hefur um árabil veitt atvinnulausum afslátt á sýningar. Samstöðukort Þjóðleikhússins eru afhent í miðasölu leikhússins, gegn vottorði um skráningu á atvinnuleysis­skrá, og gildir sem fríkort út leikárið. Handhafi kortsins á rétt á einum frímiða á hverja sýningu Þjóðleikhússins leikárið 2008/2009. Handhafi þarf aðeins að sýna kortið, ásamt persónuskilríkjum, í miðasölunni þegar viðkomandi vill koma á sýningu.

Sviðsetning Selmu er í raun önnur sviðsetning Þjóðleikhússins á Kardemommubænum en verkið var fyrst sýnt í húsinu 1960 og þá í leikstjórn Klemens Jónssonar og í leikmynd Egners. Sú sviðsetning hefur verið endurtekin í þrígang með nýjum kynslóðum leikara en ævinlega í stíl og móti upphafssýningarinnar og að jafnaði verið sýnd í tvö leikár þegar hún hefur verið sett upp. Að þessu sinni gerir Brian Pilkington leikmynd. Fjöldi leikara kemur fram í sýningunni sem stefnir í að verða vinsæl meðal ungra og aldinna leikhúsgesta.

pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.