Innlent

Innbrotaalda: Frönsk nýgift hjón rænd í Grjótaþorpinu

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Örn Ægisson á húsið sem brotist var inn í.
Örn Ægisson á húsið sem brotist var inn í. Mynd/ Daníel Rúnarsson
„Það er búið að brjótast inn í tvö hús hérna á tveimur tímum," segir Örn Ægisson, íbúi í Grjótaþorpi. Laust eftir klukkan fimm í dag var brotist inn í hús í eigu Arnar en í því dvelja hjón frá Frakklandi sem eru hér á landi í brúðkaupsferð. Þjófurinn náði að stela um þrjúhundruð þúsund krónum af fólkinu ásamt tölvu, skartgripum, myndavél og síma.

„Þau komu í gær og eru að fara að keyra hringinn í kringum landið á morgun," segir Örn en einnig var brotist inn í bílskúr í Grjótaþorpinu fyrr í dag. „Hann hefur líklegast brotist þangað inn meðan lögreglan var hjá mér að taka fingraför."

Örn segir innbrot í hverfinu nánast daglegt brauð. „Ég hugsa að það sé búið að brjótast inn í hvert einasta hús í hverfinu." Sjálfur hefur hann lent í því oftar en einu sinni að brotist sé inn til hans en sjálfur býr hann í öðru húsi í Grjótaþorpinu sem stendur við hlið þess sem brotist var inn í. Í fyrra var brotist inn í húsið sem frönsku hjónin dvelja í og segist Örn sannfærður um að þar hafi verið sami maður að verki.

Örn telur sig hafa heyrt þegar innbrotsþjófurinn fór um garðhlið hússins. „Ég heyrði ískra í hliðinu en hélt að þetta væru bara hjónin að koma heim. Síðan heyri ég að hliðinu er lokað. Tíu mínútum síðar koma hjónin heim," segir Örn og er miður sín vegna frönsku hjónanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×