Erlent

Trúa Íslendingar á jólasveininn?

Óli Tynes skrifar

Landbúnaðarráðherra Noregs tekur sterkt til orða um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Hann segir að ef Íslendingar trúi því að þeir fái varanlegar undanþágur í sjávarútvegsmálum hljóti þeir einnig að trúa á jólasveininn.

Hann segir ennfremur að Íslendingar séu að spila rússneska rúllettu með sjávarútveg sinn ef þeir gangi í sambandið.

Lars Peder Brekk segir að ástandið í sjávarútvegsmálum Evrópusambandsins hafi verið vont en fari versnandi.

Ný stefna sem sett var fram í svokallaðri grænbók breyti þar engu um.

Ekkert raunhæft sé gert til þess að minnka fiskveiðiflotann eða draga úr ofveiði.

Skelfilegt sé að 93 prósent af þeim þorski sem veiddur sé í Norðursjó sé ekki orðinn kynþroska. Ísland myndi því fljótt lenda í neti Evrópusambandsins.

Fyrir sambandið yrði Ísland eins og manna af himnum. Það myndi stækka veiðisvæði þess og veita aðgang að meiri afla.

Ísland yrði að gefa eftir fiskveiðistjórnun sína enda sé hvergi í grænbókinni minnst á að einstök ríki stjórni sínum fiskimiðum.

Svíinn Percy Westerlund sem er sendiherra Evrópusambandsins gagnvart Noregi er ósammála Brekk.

Hann segir að ef Ísland gangi í Evrópusambandið þýði það að Íslendingar hafi fengið sjávarútvegssamning sem þeir geti sætt sig við.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×