Innlent

Greiði Skógræktinni 608 milljónir króna

Í Kapelluhrauni. Þegar hefur verið skilað inn lóðum sem skipulagðar voru á landi sem Hafnarfjarðarbær tók eignarnámi af Skógrækt ríkisins í Kapelluhrauni.
Fréttablaðið/stefán
Í Kapelluhrauni. Þegar hefur verið skilað inn lóðum sem skipulagðar voru á landi sem Hafnarfjarðarbær tók eignarnámi af Skógrækt ríkisins í Kapelluhrauni. Fréttablaðið/stefán

Matsnefnd eignarnámsbóta hefur úrskurðað að Hafnarfjarðarbær eigi að greiða Skógrækt ríkisins rúmar 608 milljónir króna fyrir 160 þúsund fermetra af landi í Kapelluhrauni.

Hafnarfjarðarbær fékk landið í Kapelluhrauni afhent í apríl 2008 og skipulagði þar byggingarlóðir. Ekki náðist samkomulag við Skógrækt ríkisins um kaupverð og kom því til kasta matsnefndar eignarnámsbóta.

Skógræktin taldi að miða ætti við úrskurð matsnefndarinnar frá árinu 2005 í máli Kjartans Gunnarssonar og Reykjavíkurborgar. Þá hafi Kjartan á núverandi verðlagi fengið ríflega sex þúsund krónur á hvern fermetra af um 36 þúsund fermetra landi sínu við Norðlingaholt. Skógræktin benti á að fyrri hluta árs 2008 hefði verið mikil eftir­spurn eftir byggingarlandi á höfuðborgarsvæðinu og kvaðst telja að greiða ætti minnst einn milljarð og 72 milljónir króna fyrir landið. Þar af væru tæpar 69 milljónir í vexti frá því í apríl 2008.

Fyrir sitt leyti krafðist Hafnarfjarðarbær þess að matsnefndin miðaði við stöðuna á fasteignamarkaði eins og hún væri orðin eftir bankahrunið. Umrædd eign væri „í raun óseljanleg á almennum markaði“ og eini raunhæfi kaupandinn að landinu væri bærinn sjálfur. „Það voru allar lóðirnar á þessu svæði farnar og margir að bíða en þeim hefur öllum verið skilað aftur og gatnagerð hætt,“ segir Gísli Valdimarsson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar, við Fréttablaðið.

Matsnefndin segir að í þessu máli eigi matið á landinu að miða við fasteignaverð eins og það var í apríl 2008 „enda hefði landið skipt um hendur á því verði ef samkomulag hefði náðst. Hafnarfjarðarbæ bæri að taka áhættuna af þeirri verðlækkun sem orðið hefur á landi og lóðum síðan“. Varðandi samanburðinn við áðurnefnt land Kjartans Gunnarssonar segir matsnefndin hins vegar að landið í Kapelluhrauni sé verr staðsett og henti ekki eins vel til bygginga og landið í Norðlingaholti.

Niðurstaðan varð því sú að Skógræktin fær 3.800 krónur á hvern fermetra eða alls rúmar 608 milljónir eins og fyrr sagði. „Þetta er ekki endanlegt. Við munum nú skoða málið og ákveða hvort bærinn unir niðurstöðunni eða beri hana undir dómstóla,“ segir Anna Jörgensdóttir, bæjarlögmaður í Hafnarfirði.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×