Lífið

Brassstelpur Bjarkar blása úti í sumar

Stúlkurnar í brasskvintettinum munu leika létta tóna í allt sumar. fréttablaðið/arnþór
Stúlkurnar í brasskvintettinum munu leika létta tóna í allt sumar. fréttablaðið/arnþór

Brasskvintettinn Brasskarar vera á ferð og flugi um miðbæ Reykjavíkur í allt sumar og leika létta tóna fyrir vegfarendur. Kvintettinn er á vegum skapandi sumarstarfa Hins hússins og er skipaður þeim Bergrúnu Snæbjörnsdóttur sem leikur á horn, Hörpu Jóhannsdóttur á bassabásúnu, Sigrúnu Jónsdóttur á básúnu og Valdísi Þorkelsdóttur og Ragnhildi Gunnarsdóttur sem báðar leika á trompet.

Stúlkurnar ætla sér að leika klassíska tónlist, djass og dægurtónlist fyrir hvern þann sem á vill hlýða. „Það eru gríðarleg forréttindi fyrir okkur að fá að vinna við tónlistina í sumar. Þetta er bæði góð reynsla í því að koma fram og einnig góð æfing fyrir okkur sem tónlistarmenn,“ segir Valdís um sumarstarfið.

Stúlkurnar kynntust flestar við gerð Volta, nýjustu plötu Bjarkar, þar sem þær voru í hópi tíu manna brasssveitar sem fylgdi söngkonunni á tónleikaferðalagi hennar. „Við munum halda nokkra innitónleika sem verða auglýstir sérstaklega en svo ætlum við einnig að halda óvænta tónleika víðs vegar um borgina og jafnvel nokkra útitónleika þegar vel viðrar,“ segir Valdís. Aðspurð um framtíðaráform Brassk­aranna segir hún þau óráðin enn sem komið er, „Maður veit aldrei hvað kemur út úr svona samstarfi, en mér finnst ekki ólíklegt að við eigum eftir að halda áfram að starfa saman eftir sumarið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.