Innlent

Fjöldi útlendinga flytur til landsins

búferlaflutningar Fleiri Íslendingar hafa flutt af landi brott en í fyrra, þótt heildartala brottfluttra sé svipuð. Mun færri erlendir ríkisborgarar yfirgefa landið. Flestir Íslendingar fara til Norðurlandanna.
fréttablaðið/vilhelm
búferlaflutningar Fleiri Íslendingar hafa flutt af landi brott en í fyrra, þótt heildartala brottfluttra sé svipuð. Mun færri erlendir ríkisborgarar yfirgefa landið. Flestir Íslendingar fara til Norðurlandanna. fréttablaðið/vilhelm
Tæplega 7.000 hafa flutt af landi brott á fyrstu níu mánuðum ársins og ef heldur fram sem horfir verður sú tala komin í 9.000 í árslok. Það er svipuð tala og í fyrra. Það sem skilur hins vegar á milli er að í fyrra voru Íslendingar 36 prósent þeirra sem fluttu af landi brott, en í ár stefnir í að þeir verði helmingur. Þetta kemur fram í tölum Creditinfo.

Þá hafa tæplega 4.000 flutt til landsins, þar af um 2.500 útlendingar. Langflestir þeirra eru Pólverjar, tæplega 1.000 talsins.

Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra segir þessar tölur sýna að opinn vinnumarkaður virki vel hér á landi. Ágætlega hafi gengið að taka á móti miklum fjölda útlendinga sem komu hingað til vinnu síðastliðin ár og sá hópur bregðist við framboði á vinnumarkaði og flytji burt, vanti vinnuna.

Árni Páll segir í raun að miðað við fréttaflutning hefði mátt búast við meiri brottflutningi Íslendinga, enda virki opinn vinnumarkaður í báðar áttir. Eðlilegt sé að fólk leiti sér vinnu þar sem hana er að fá og það sé engin uppgjöf. Betra sé að nýta sér þá möguleika sem fólk kann að eiga erlendis.

„Jákvæðu fréttirnar í þessu eru að hér er ekki alvarlegur útlendingavandi eftir þessa miklu þenslu og við glímum ekki við stórfelldan landflótta. Vinnumarkaður er opinn og hefur reynst í stakk búinn til að taka á móti mikilli þenslu og dragast hratt saman,“ segir Árni Páll.

Langflestir Íslendingar hafa flust til Norðurlandanna og flestir til Danmerkur, 1.091. Litlu færri hafa þó farið til Noregs, eða 1.042. Svíþjóð er þriðji vinsælasti áfangastaðurinn, en 501 hefur flust þangað.

Vinsældir Noregs hafa tekið stökk á milli ára, í fyrra fluttu aðeins 278 þangað allt árið, en eru nú ríflega þúsund. Flutningar Íslendinga til Noregs hafa því aukist um 275 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru um 25 prósent þeirra Íslendinga sem flust hafa til Noregs á þessu ári með vanskil í lögheimtuferli.

kolbeinn@frettabladid.is
ATHATHATHATHATH - VIL HELST NOTA MYNDINA SEM ER Á HÆÐINA EN EF ÞAÐ GENGUR EKKI ÞÁ ÞESSA - SAMI MYNDATEXTI ÞÁ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×