Lífið

Fara á Ólympíuleika samkynhneigðra

Sundlið Strákafélagsins Styrmis sem keppir á World Outgames-leikunum í Kaupmannahöfn í sumar. fréttablaðið/anton
Sundlið Strákafélagsins Styrmis sem keppir á World Outgames-leikunum í Kaupmannahöfn í sumar. fréttablaðið/anton

Strákafélagið Styrmir, sem er skipað samkynhneigðum knattspyrnu- og sundmönnum, undirbýr þátttöku sína í World Outgames-leikunum sem verða haldnir í Kaupmannahöfn í sumar.

Um nokkurs konar Ólympíuleika samkynhneigðra er að ræða og hlakkar Jón Þór Þorleifsson úr Styrmi mikið til. „Það eru stífar æfingar hjá öllum og mikil gleði. Við erum sex sem erum að fara að synda og svo eitt fótboltalið og stuðningsmenn með,“ segir hann en í hópnum eru 25 manns.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Styrmir tekur þátt í leikunum og jafnframt í fyrsta sinn sem sunddeildin lætur til sín taka. Fótboltaliðið tók í vor þátt í alþjóðlegu móti í Kórnum í Kópavogi en sunddeildin fær nú loksins að sýna hvað í henni býr. Var hún stofnuð í september síðastliðnum með það að markmiði að taka þátt í leikunum.

Fyrstu World Outgames-leikarnir voru haldnir í Montreal í Kanada fyrir þremur árum. Þar tóku 18 þúsund manns frá 111 löndum þátt í hinum ýmsu íþróttagreinum og er búist við enn meiri þátttöku í ár.

Ekki skemmir fyrir þátttökunni að hin árlega Gay Pride-ganga verður haldin í borginni þegar keppninni lýkur. „Við verðum örugglega þreytt eftir keppnina en það getur vel verið að við löbbum með,“ segir Jón Þór og segir að gangan verði góð upphitun fyrir Gay Pride í Reykjavík einni viku síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.