Innlent

Fimmtungur heimila skuldar umfram eign

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, segir líklegt að flestir þeirra sem lendi í neikvæðri eignastöðu þoli áraunina. Fréttablaðið/Valli
Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, segir líklegt að flestir þeirra sem lendi í neikvæðri eignastöðu þoli áraunina. Fréttablaðið/Valli

 „Þau heimili sem verða fyrir miklu áfalli, svo sem hækkun á greiðslubyrði og atvinnumissi, á sama tíma og þau glíma við þrönga eiginfjárstöðu, eiga á hættu að lenda í miklum vandræðum,“ segir Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur í Seðlabankanum, um bráðabirgðaniðurstöður starfshóps bankans um áhrif fjármálakreppunnar á efnahag heimilanna, sem kynntar voru í gær. Þó megi vænta að flestir standist þolraunina og fari ekki í þrot þrátt fyrir neikvæða eignastöðu.

Hann segir lítið þurfa til að breyta niðurstöðunum til hins verra. Aðstæður eru lítið skárri erlendis. Fjórðungur húseigenda í Bandaríkjunum er kominn í neikvæða eiginfjárstöðu nú um stundir auk þess sem staðan er slæm í Austur-Evrópu, að hans sögn.

Helstu niðurstöður Seðlabankans eru þær að tæplega tuttugu prósent heimila landsins eru þegar komin í neikvæða eiginfjárstöðu og 22 prósent á jaðrinum eftir efnahagshrunið í haust.

Athygli vekur að stærsti hópur þeirra sem þegar er kominn í neikvæða eiginfjárstöðu er fólk á aldrinum 30 til 44 ára. Næst á eftir koma fasteignaeigendur á aldursbilinu 45 til 59 ára í sömu stöðu.

Greiningin byggir á gagnagrunni með fjárhagslegum upplýsingum sem Seðlabankinn aflaði í samstarfi við fjármálafyrirtækin um eignir og skuldir áttatíu þúsund heimila landsins.

Gagnagrunnurinn er einstakur og engin sambærileg gögn til, að sögn Þorvarðar Tjörva.

Fyrstu niðurstöður benda til að af 80 þúsund hús- og íbúðaeigendum séu 70 þúsund með húsnæðisskuldir sem eru minni en þrjátíu milljónir króna. Þeir sem verst eru staddir eru 2.400 húseigendur með lán í erlendri mynt eða blönduð lán en þeir eru að glíma við neikvæða eiginfjárstöðu upp á meira en fimm milljónir króna.

Þorvarður Tjörvi bendir á að veikasti hlutinn séu skortur á upplýsingum um tekjur heimila landsins og lánveitingar lífeyrissjóða. Það komi í veg fyrir nákvæma greiningu á greiðslubyrði. Áætlað er að bæta þeim við á næstu vikum þegar ítarlegri upplýsingar verða kynntar. jonab@markadurinn.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×