Innlent

Gróðabrask ástæða skulda í sjávarútvegi

Yfirskuldsetningu sjávarútvegsfyrirtækja má að stórum hluta rekja til annars en reksturs fyrirtækjanna. Nálægt helmingur skulda sjávarútvegsins er til kominn vegna hlutabréfakaupa, afleiðusamninga og skuldsettra yfirtöku fyrirtækja.

Þetta kom fram í máli Ásmundar Stefánssonar, bankastjóra Landsbankans (NBI), á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva. Um helmingur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja er viðskiptavinir bankans og því eru tölur NBI marktækar fyrir stöðuna í íslenskum sjávarútvegi í heild, að hans mati.

Þegar ástæður yfirskuldsetningar fyrirtækjanna eru skoðaðar eru 54 prósent skulda þeirra tilkomin vegna kaupa á skipum og kvóta. 28 prósent eru tilkomin vegna hlutabréfakaupa og fimmtán prósent vegna afleiðusamninga.

Skuldsettar yfirtökur skýra þrjú prósent skuldanna. „Það sem er áhugavert er að kaup á skipum og kvóta eru aðeins ástæðan fyrir um helmingi yfirskuldsetningarinnar," sagði Ásmundur. Með öðrum orðum eigi um helmingur skuldsetningar­innar rætur að rekja til ákvarðana sem tengist ekki rekstri fyrirtækjanna.

Sjö af hverjum tíu fyrirtækjum standa ágætlega þó að mörg þurfi tímabundna aðstoð. Eftir stendur að eitt af hverjum tíu fyrirtækjum mun vart starfa undir óbreyttu eignarhaldi. Ásmundur sagði að staða fyrirtækja í vinnslu væri hvað best en erfiðust hjá þeim sem rækju minnstu bátana, og þá vegna kvótakaupa. Hann telur það liggja fyrir eftir um tvö ár hvernig spilist úr skuldavanda fyrirtækjanna.

Heildarskuldir sjávarútvegsins voru 550 milljarðar í júlí og er talið að skuldir fyrirtækjanna hafi tvöfaldast vegna veikingar krónunnar á síðustu misserum. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×