Innlent

Nokkuð um mistök í kosningabaráttu Ástu Ragnheiðar

Mikið gengur á í prófkjörsbaráttu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra.
Mikið gengur á í prófkjörsbaráttu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, segir að það eigi ekki af henni að ganga þessa dagana. Þrívegis hafi verið gerð mannleg mistök í prófkjörsbaráttu hennar.

Í dag birtist auglýsing frá henni í Fréttablaðinu en frambjóðendum er óheimilt að auglýsa framboð sitt í fjölmiðlum. Þó er leyfilegt að auglýsa fundi og eða aðra viðburði. Kjörstjórn Samfylkingarinnar í Reykjavík sá ástæðu til að senda frambjóðendum flokksins póst í dag vegna málsins þar sem ítrekaðar voru þær reglur sem gilda í prófkjörinu.

Á laugardaginn opnaði Ásta kosningamiðstöð sína. Hún ætlaði að auglýsa opnunina með pompi og prakt þar sem hluti karlakórs Reykjavíkur kom og söng fyrir hana og gesti opnunarinnar. Mannleg mistök urðu hins vegar til þess að engin auglýsing birtist.

Í gær ætlaði hún að nýta sér útsendingu Samfylkingarinnar í Reykjavík á tölvupósti á póstlista flokksins. Þegar pósturinn var sendur út vildi ekki betur en svo að röng útgáfa fór af textanum hennar til flokksmanna.

,,Í dag ætlaði ég að halda kaffifund á prófkjörsmiðstöðinni sem ég ætlaði að auglýsa sérstaklega fyrst opnunarauglýsingin brást á laugardaginn. Það vildi ekki betur en svo að enn ein mannlegu mistökin urðu til þess að dreifispjaldið mitt birtist í blöðunum í stað auglýsingarinnar sem gerð hafði verið. Þar vantaði sérstaka tilvísun í kaffifundinn hjá mér en þá auglýsingu má sjá hér að neðan," segir Ásta í pistli á heimasíðu sinni.

Ásta vonar að máltækið allt er þá þrennt er eigi við um sig og að allt gangi snurðulaust fyris sig það sem eftir lifir kosningabaráttunnar.

Ásta sem setið hefur á þingi síðan 1995 sækist eftir þriðja sætinu í prófkjöri Samfylkingarinnar.

Pistil Ástu Ragnheiðar er hægt að lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×