Innlent

Íbúa varð ekki meint af eldinum

Það var gríðarlegt eldhaf á þaki hússins sem stendur við hornið á Fellsmúla og Síðumúla þegar fréttastofu bar að garði um klukkan fjögur í dag. Allt tiltækt slökkvilið og lögreglulið var á svæðinu auk fjölmargra vegfarenda sem fygldust með sjónarspilinu. Sprengingar heyrðust af þakinu en eldhafið hafði gleypt nokkra gaskúta sem þar stóðu....

Það þarf ekki að fjölyrða um þá miklu hættu sem slökkviliðsmenn voru í þegar þessar sprengingar urðu. Einn gaskútur sem sprakk á þakinu lenti á bílstæðinu Fellsmúlameginn örfáum metrum frá þar sem nokkrir slökkviliðmenn voru að störfum.

Um 30 manns voru í húsinu þegar eldurinn kom upp og náðu allir að forða sér út þegar eldsins varð vart. Það tók slökkviliðið svo ekki nema um 30 mínútur að ráða niðurlögum eldins.

,,Það voru menn að bræða dúk á þakið og þeir hafa misst eld í þetta. Þegar við komum örfáum mínútum seinna var kominn mikill eldur í þetta," segir Þorvaldur Geirsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu.

Þorvaldur sagði að margir gaskútar hafa verið á þakinu en tekist hafi að kæla þá.

Það eru mörg fyrirtæki með starfsemi í húsinu. Ein íbúð er á efstu hæðinni en enginn var í henni þegar eldurinn kom upp. Íbúi hennar var við vinnu á annari hæð í húsinu en í samtali við fréttastofu sagðist hann ekki hafa orði meint af eldinum.




Tengdar fréttir

Gassprenging á þakinu - Myndband

Gríðarleg gassprenging varð á þaki hússins við Síðumúla 34 en töluvert af gaskútum eru á þakinu samkvæmt vettvangsstjóra slökkviliðsins. Þegar slökkviðið kom fyrst á vettvang fyrir um klukkustund síðan þá var fólk á þaki hússins. Þeim var öllum bjargað niður af þakinu með körfubíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×