Innlent

Yfirtakan á Straumi hefur ekki áhrif á Íbúðalánasjóð

Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs.

Yfirtaka Fjármálaeftirlitsins á Straumi í gær hefur ekki áhrif á fjárhagslega stöðu Íbúðalánasjóðs. Laust fé sjóðsins hefur einvörðungu verið ávaxtað á innlendum innlánsreikningum og með ríkisverðbréfum frá hruni bankanna í október síðastliðnum, að fram kemur í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.

,,Íbúðalánasjóði er, samkvæmt útgefinni áhættu- og fjárstýringarstefnu sjóðsins, skylt að hafa yfir að ráða lausu fé sem nemur að lágmarki áætluðum nettó útlánum í þrjá mánuði og afborgunum af lánum sjóðsins sex mánuði fram í tímann. Þetta fé nemur nú alls um fjörutíu milljörðum króna," segir í tilkynningunni.

Íbúðalánasjóður ávaxtar lausaféð á innlánsreikningum hjá fjármálastofnunum, með ríkisverðbréfum eða í Seðlabanka Íslands. Hluti þessa fjár hefur verið ávaxtað í innlánum hjá Straumi.

,,Með góðri lausafjárstöðu Íbúðalánasjóðs er tryggt að hann geti veitt lán til íbúðarkaupenda og mætt afborgunum af skuldum sínum í ákveðinn tíma án þess að þurfa að sækja nýtt lánsfé út á markaðinn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×