Innlent

Segir NTC borið röngum sökum

Svava Johansen
Svava Johansen

Svava Johansen eigandi tískukeðjunnar NTC segir að eigendur E-Label beri fyrirtæki sitt röngum sökum þegar því hefur verið haldið fram að NTC hafi látið stoppa framleiðslu E-Label.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Svövu Johansen sem sjá má hér að neðan.

„Eigendur E-Label hafa undanfarna daga sakað NTC um aðför gegn sér og sakað NTC um að hafa komið í veg fyrir að ný fatalína E-label fáist framleidd hjá samstarfsaðila NTC í Frakklandi. Þessu hefur E-Label m.a. haldið fram í Fréttablaðinu sem og á Facebook síðu sinni þar sem fjölmargir lesendur hafa tjáð sig um málið. Okkur þykir miður hvernig málið er kynnt af E-Label og viljum við með þessari yfirlýsingu greina frá hvernig málið snýr að NTC.

Málið kemur fyrst inn á borð til NTC um miðja síðustu viku þegar við heyrum af tilraunum E-Label til að fá vöru sína framleidda hjá samstarfsaðila okkar í Frakklandi. Annar eigandi E-Label hafði þá haft samband við samstarfsaðilann, kynnt sig sem fyrrverandi starfsmann NTC og viðrað hugmyndir um samstarf við E-Label. Þegar það kom upp að framleiðandinn væri bundin samningum við NTC var því svarað til að E-Label varan væri ekki seld í verslunum á Íslandi heldur væri varan fyrir Bretlandsmarkað.

Með þessar upplýsingar tekur framleiðandinn viðskiptin á næsta stig sem er að skoða mögulega framleiðslu á hönnun E-Label og hvort pöntunarmagn sé í samræmi við kröfur verksmiðjunnar. Eins og fólk þekkir sem hefur komið nálægt framleiðslu fatnaðs þarf að vera samræmi á milli flækjustigs við framleiðslu, innkaupsverðs og framleiðslumagns til að framleiðandinn hafi eitthvað upp úr krafsinu. Til að gera langa sögu stutta þá var pöntunarmagn E-Label talsvert undir þeim lágmörkum sem framleiðandinn er vanur að vinna með ásamt því að varan þótti of flókin í framleiðslu og þar sat málið fast þegar NTC frétti af því. Framleiðslan var s.s. ekki hafin og engir samningar á borðinu um framleiðslumagn eða verð.

Í síðustu viku þegar við heyrum sögur þess eðlis að NTC hafi stoppað framleiðslu E-Label höfum við samband við framleiðandann til að heyra hans hlið á málinu. Framleiðandinn greinir okkur frá því að hann hafi ekki getað framleitt fyrir E-Label vegna ofangreindra atriða og tjáð E-Label það. Það sé svo ranglega túlkun E-Label á þeim málalyktum að NTC hafi haft þar áhrif. Þetta leiðir svo af sér yfirlýsingar og fúkyrðakast af hálfu eiganda E-Label að NTC, jafnt fyrirtækinu, verslunum, vörum sem og eiganda.

Varðandi ásakanir E-Label um að NTC sé að setja stein í götu íslenskra fatahönnuða viljum við koma því á framfæri að við höfum í gegnum tíðina selt vörur í verslunum okkar frá íslenskum hönnuðum svo sem EMAMI kjólinn, vörur frá BIRNU og Júníform. Einnig hefur NTC átt í farsælu samstarfi við Henson í gegnum tíðina. Innan NTC hafa margir hönnuðir hafið sinn feril og má þar nefna Andreu Magnúsdóttur sem átti stóran þátt í því að koma MOSS merkinu á laggirnar.

Það hryggir okkur að sjá hvernig eigendur E-Label hafa ákveðið að kynna málið í fjölmiðlum og fyrir almenningi. Við sjáum ekki hvernig það er E-Label til framdráttar að tengja NTC ranglega við óheiðarlega viðskiptahætti. Við vonum að með yfirlýsingu þessari skýrist málið fyrir þeim sem ekki til þekkja og að fólk geti myndað sér sína eigin skoðun þegar hið rétta í málinu hefur komið fram. NTC vonar að hér með sé málinu lokið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×