Innlent

Uppbygging húsanna við Lækjargötu kostar 1,6 milljarð

Stefnt er að því að framkvæmdum við uppbyggingu húsanna á brunareitnum í miðbæ Reykjavíkur verði lokið haustið 2010. Húsin verða reist í sinni upprunalegu mynd með örlitlum breytingum. Uppbyggingin er talin kosta 1,6 milljarð króna.

Húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu gjöreyðilögðust í eldsvoða í aprílmánuði árið 2007. Ltið hefur gerst á svæðinu á þeim tveimur árum sem eru liðin frá brunanum en nú ætlar borgin að endurbyggja húsin.

Samkvæmt frumhönnun sem skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti í síðustu viku er gert ráð fyrir að húsin verði endurbyggð í sinni upprunalegu mynd. Nýja Bíó verður þó þrjár hæðir í stað tveggja eins og áður.

,,Því var ætlað að verða veggur að Lækjartorgi á sínum tíma og við viljum að framhlið þessa húss verði sjáanleg af því að hún mun prýða umhverfið töluvert mikið og svo um leið viljum við að þarna verði opnuð gönguleið inn á milli húsanna þannig að stóri fallegi garðurinn aftan við Hressingarskálann verði aftur gerður að almenningsgarði," segir Hjörleifur Stefánsson, arkitekt hjá Gullinsniði.

Gert er ráð fyrir því að framkvæmdum ljúki haustið 2010.

Júlíus Vífill Ingvarsson, formaður skipulagsráðs, segir að lausleg kostnaðaráætlun með uppkaupum geri ráð fyrir kostnaði upp á 1,6 milljarða króna.

,,Reykjavíkborg mun byggja þetta en ef einhver hefur áhuga þá er Reykjvíkurborg líka til í að ræða sölu þessara eigna og það er líka það sem stefnt er að,"segir Júlíus Vífill.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×