Innlent

Vísbendingar um að brennisteinninn skemmi mosann

Hellisheiðarvirkjun.
Hellisheiðarvirkjun.

Vísbendingar eru um að brennisteinsvetni eigi þátt í þeim mosaskemmdum sem orðið hefur vart við í nágrenni Hellisheiðarvirkjunar. Þetta kemur fram í rannsókn sem Orkuveitan lét framkvæma en hún leiddi í ljós að ekki er unnt að fullyrða með óyggjandi hætti að brennisteinsvetni sé að drepa mosa næst Hellisheiðarvirkjun.

Rannsóknin leiddi í ljós vísbendingar um að brennisteinsvetnið eigi þátt í mosaskemmdum í allt að 700 metra fjarlægð frá stöðvarhúsinu en ekki er vitað um þolmörk mosa fyrir brennisteini. Sýni voru tekin við þrjár jarðgufuvirkjanir á Suðvesturlandi og í Bláfjöllum, þar sem svipaðar mosaskemmdir voru greinilegar, en talið víst að áhrifa jarðhitanýtingar gætti ekki. Vísindamenn treysta sér ekki til að draga afgerandi ályktanir af þeim gögnum sem fyrir liggja um að efna- og umhverfisálag valdi meiri rofskemmdum á Hellisheiði en í Bláfjöllum og mæla með frekari rannsóknum sem ráðgert er að hefjist í vor.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að Brennisteinsvetni sé jarðhitalofttegundin sem gefur frá sér hveralyktina og er tæplega einn þúsundasti hluti af gufublæstrinum frá virkjuninni. „Í vor hefst tilraun þar sem brennisteinsvetni frá virkjuninni verður dælt niður í jarðhitageyminn á Hengilssvæðinu, þaðan sem það kom," segir einnig.

Þá segir að í byrjun september 2008 hafi borist ábendingar um skemmdir á mosa í grennd Hellisheiðarvirkjunar. „Orkuveita Reykjavíkur, sem á og rekur virkjunina, brást þegar við með því að leita til vísindafólks í því skyni að rannsaka hugsanleg tengsl útblásturs brennisteinsvetnis frá virkjuninni og skemmdanna. Dr. Árni Bragason jurðaerfðafræðingur og Eva Yngvadóttir efnaverkfræðingur hafa nú skilað skýrslu um rannsóknir sínar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×