Innlent

Frændur storma inn á tryggingamarkaðinn

Edvard Heen, framkvæmdastjóri TF.
Edvard Heen, framkvæmdastjóri TF.

Stærsta tryggingafélag Færeyja lýsti þeim áformum sínum í dag að komast inn á íslenska tryggingamarkaðinn fyrir áramót. Færeyingarnir vilja helst kaupa eitt þriggja stærstu tryggingafélaga landsins en takist það ekki segjast þeir staðráðnir í að hefja eigin starfsemi hérlendis.

Tryggingafélagið Föroyar er með 75 til 80 prósent af færeyska markaðnum, í eigu 31 þúsund tryggingataka, en til að geta stækkað meira þarf að leita út fyrir landsteinana. Þar er Ísland nærtækast, segir hinn norski framkvæmdastjóri félagsins, Edvard Heen, enda eina landið sem Færeyjar hafa gert fríverslunarsamning við og löndin því eitt efnahagssvæði.

Þeir upplýsa ofeimnir um áform sín, að kaupa íslenskt félag. Sjóvá, VÍS og Tryggingamiðstöðin, í þessari röð, segir framkvæmdastjórinn um óskalistann. Ef enginn vill selja segjast þeir sjálfir stofna nýtt tryggingafélag hérlendis eða útibú frá færeyska félaginu og ætla að hafa hraðar hendur, vilja hefja starfsemi síðar á árinu.

Spurður hvort íslenskir neytendur sjái ódýrari tryggingar er svarið að þeir ætli að bjóða upp á samkeppnishæft verð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×