Innlent

Öryrkjar ósáttir við útvarpsgjald

Andri Ólafsson skrifar

Öryrkjar eru ósáttir við að þurfa að greiða fullt útvarpsgjald á meðan aldraðir horfa frítt á Ríkissjónvarpið. Formaður öryrkjabandalagsins hefur óskað eftir fundi með menntamálaráðherra vegna málsins.

Um síðustu áramót lagðist af innheimta afnotagjalds ríkisútvarpsins en þess í stað var tekið upp sérstakt útvarpsgjald, 17200 krónur á mann. Skattstjórar rukka gjaldið en það eru ekki allir sem þurfa að borga. Eldri borgarar sem ekki greiða í framkvæmdasjóð aldraðra eru til að mynda undanskyldir og líka þeir sem dveljast á dvalar og hjúkrunarheimilum. Öryrkjar þurfa hins vegar að borga eins og allir hinir.

Eitt af því sem öryrkjar eru ósáttir við er að allir íbúar sambýla eru látnir borga útvarpsgjald þar sem sambýli eru ekki skilgreind sem hjúkrunarheimili. Þetta er gert þrátt fyrir að íbúar sambýla geta í mörgum tilvikum ekki nýtt sér sjónvarp né útvarp vegna fötlunar, heyrnar eða sjónskerðingar.

Halldór Sævar Guðbergsson, formaður ÖBÍ, mun síðar í vikunni eiga fund með aðstoðarmanni menntamálaráðherra þar sem honum verða kynntar hugmyndir örykja um lagfæringar á innheimtu útvarpsgjaldsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×