Innlent

Jón Trausti Lúthersson: „Ótrúlega öfgakennd viðbrögð“

Jón Trausti Lúthersson var handtekinn í Leifsstöð árið 2003.
Jón Trausti Lúthersson var handtekinn í Leifsstöð árið 2003.

Fáfnismenn mótmæla harðlega viðbrögðum stjórnvalda en gefin hefur verið út yfirlýsing, af hálfu dómsmálaráðuneytis, þar sem fram kemur að tekið verði upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá 5. mars til 7. mars.

Í yfirlýsingunni segir að atburðurinn, Vítisenglaveislan það er að segja, ógni allsherjarreglu og þjóðaröryggi hér á landi. Því hafi ríkisstjórnin gripið til þessa úrræðis.

„Þarna eru um ótrúlega öfgakennd viðbrögð að ræða," segir Vítisengillinn Jón Trausti Lúthersson en hann ásamt félögum sínum í Fáfni, sem eru áhangendur Vítisenglanna, ætla að opna nýtt klúbbahús sitt í Hafnarfirði á laugardaginn næsta.

Þeir hafa boðið Vítisenglum frá nágrannalöndunum en sjálfur segist hann ekki vita hversu margir munu koma hingað til lands við það tilefni.

Þegar hefur tveimur Vítisenglum verið vísað úr landi en það mun hafa gerst í gær. Þeir voru strax handteknir á Leifsstöð, þaðan voru þeir sendir með næsta flugi til síns heimalands.

Jón Trausti segir að hann hafi falið lögfræðingi að skoða málið en formlegrar yfirlýsingar af hálfu Fáfnismanna er að vænta síðar í dag.






















Tengdar fréttir

Vítisenglaveisla ógn við þjóðaröryggi

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að taka upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá 5. mars til og með 7. mars. Í tilkynningu í Lögbirtingablaðinu kemur fram að breytingunni sé ætlað að „koma í veg fyrir væntanlega komu ákveðins hættulegs hóps frá og um nágrannalönd Íslands í Evrópu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×