Innlent

Sóttvarnarlæknir ræðir við Alþjóðaheilbrigðisstofnun í dag

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Það er náttúrlega erfitt að fylgjast með því hvort það sé einhver straumur frá Mexíkó," segir Víðir Reynisson, deildarstjóri hjá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra. Víðir segir að lögreglan sé í samskiptum við fjölmarga aðila, þar á meðal utanríkisráðuneytið, til að reyna að komast að því hve margir Íslendingar eru í Mexíkó. Þá hafi fjölmargir Íslendingar í Mexíkó haft samband við Sóttvarnarlækni til að leita eftir upplýsingum.

„Og við erum búin að funda í morgun með sóttvarnarlækni og fjölda af öðrum samstarfsaðilum okkar þar sem við erum að fara yfir stöðuna. Við erum að starfa á svokölluðu hættustigi í viðbúnaðaráætlun fyrir inflúensuna," segir Víðir. Það þýði aukið samráð og aukið upplýsingastreymi. Verið sé að miðla upplýsingum milli aðila.

„Það sem okkur vantar núna er að fá upplýsingar frá alþjóðasamfélaginu um eðli þessarar flensu. Og Sóttvarnarlæknir er að vinna í því í samstarfi við bæði Alþjóðaheilbrigðisstofnunina og Sóttvarnarstofnun Evrópu og verður meðal annars á símafundi vegna þess í dag," segir Víðir.

Boðað hefur verið til blaðamannafundar í Samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×