Innlent

Úrslitatilraun gerð í dag

Úrslitatilraun verður gerð í dag til að bjarga stöðugleikasáttmálanum. Þreifingar hafa verið á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í morgun en framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins fundar í hádeginu vegna málsins.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa lýst yfir andstöðu við fjölmörg áform ríkisstjórnarinnar í efnhagsmálum. Meðal annars við fyrirhuguðum orkuskatti, breytingum á kvótakerfinu og skattahækkunum.

Þá hefur einnig verið kallað eftir stýrivaxtalækkun og afnámi gjaldeyrishafta. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusambands íslands hafa rætt það sín á milli að segja upp stöðugleikasáttmálanum en framlengja engu að síður kjarasamningum sem renna út um næstu mánaðamót.

Ríkisstjórnin lagði í gær fram tillögur um hvernig bjarga mætti stöðugleikasáttmálanum en tillögurnar þóttu ekki ganga nógu langt og var svarað með breytingum.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að málið væri enn opið í báða enda þegar fréttastofa hafði samband við hann nú rétt fyrir fréttir en að málið ætti að skýrast síðar í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×