Innlent

Fjármálaráðherra er bjartsýnn á að lausn náist á atvinnumarkaði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpinu í morgun. Mynd/ Vilhelm.
Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir frumvarpinu í morgun. Mynd/ Vilhelm.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist eiga von á því að hægt verði að finna lausn á stöðunni sem upp er komin á atvinnumarkaði. Úrslitatilraun hefur staðið yfir í dag til að bjarga stöðugleikasáttmálanum, en sáttmálinn rennur út á miðnætti. Þreifingar hafa verið á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í dag. Stjórn Samtaka atvinnulífsins fundaði um málið í hádeginu og var þungt hljóð í mönnum að sögn Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA.

Vilhjálmur segir að það sem helst þurfi að ná niðurstöðu í séu skattmál, atvinnuleysistryggingar, stórar fjárfestingar í atvinnulífi og sjávarútvegsmálin. „Þetta er nú svona það sem hefur staðið út af svona í restina," segir Vilhjálmur. Með sjávarútvegsmálum á hann við þær umræður sem hafa verið í gangi um innköllun aflaheimilda.

Steingrímur segir að stjórnvöld hafi reynt að teygja sig mjög langt til að að ná áframhaldandi samkomulagi. „Við erum að reyna og höfum reynt að teygja okkur langt. En að lokum er þetta í þeirra höndum hvað varðar kjaraþáttinn. Það verður að vera þeirra ákvörðun," segir Steingrímur. Hann segir að ríkisstjórnin sé hins vegar tilbúin til að teygja sig eins langt og þau geti hvað varði aðkomu ríkisstjórnarinnar að stöðugleikasáttmálanum og í gær hafi komið yfirlýsing sem hafi ríkt sátt um.

Steingrímur segist ekki vilja tjá sig um einstakar kröfur sem Samtök atvinnulífsins setji fram. „Ég ætla nú ekkert út í einstök efnisatriði á meðan málið er á þessu stigi. Ég held að það hafi ekkert upp á sig. Við erum tilbúin að leggja allt það af mörkum sem við getum til að eiga áfram gott samstarf við þessa aðila en það er ekki hægt að kúvenda í grundvallarstefnumálum, bara sísona undir þrýstingi í þessum aðstæðum. Því eru takmörk sett hvað menn geta verið að fara langt í einhverju svoleiðis löguðu. Það þarf þá að fá pólitískt umboð til sliks," segir Steingrímur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×