Innlent

Mega byggja á umdeildri sjávarlóð

Hjónin sem eiga Miðskóga 8 hafa um árabil reynt að fá að byggja hús á sjávarlóðinni. Einn angi málsins teygir sig yfir á lóðina fyrir aftan þar sem fyrrverandi forseti bæjarstjórnar býr. Hjónin saka hann um nafnlausan óhróður á netinu og reka meiðyrðamál gegn honum fyrir dómstólum.Fréttablaðið/Arnþór
Hjónin sem eiga Miðskóga 8 hafa um árabil reynt að fá að byggja hús á sjávarlóðinni. Einn angi málsins teygir sig yfir á lóðina fyrir aftan þar sem fyrrverandi forseti bæjarstjórnar býr. Hjónin saka hann um nafnlausan óhróður á netinu og reka meiðyrðamál gegn honum fyrir dómstólum.Fréttablaðið/Arnþór

Bæjarstjórn Álftaness hafði ekki málefnalegar ástæður til að synja eigendum sjávarlóðarinnar á Miðskógum 8 um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Eigendur Miðskóga 8 sóttu fyrst um byggingarleyfi í janúar 2006 og aftur í maí 2008 eftir að Hæstiréttur hafði sagt lóð þeirra vera byggingarlóð samkvæmt deiliskipulagi frá 1981. Bæjarstjórnin kvaðst telja að þetta skipulag væri ekki í gildi. Þessu hafnaði bæði Hæstiréttur og nú úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Í fyrri byggingarleyfisumsókninni var hins vegar gert ráð fyrir of mikilli þakhæð og var hún lækkuð í seinni umsókninni.

Úrskurðarnefndin hafnar þeim rökum bæjaryfirvalda að gólfhæð nýja hússins verði tuttugu sentimetrum of lágt yfir sjávarmáli. Nefndin segir ákvæði um 5,20 metra hæð yfir sjávarmáli aðeins eiga við í nýjum hverfum. Þá var heldur ekki fallist á að verndun strandsvæða, gerð göngustíga eða fráveita ætti að standa í vegi fyrir því að byggt yrði á lóðinni.

„Er fullljóst að engin friðlýsing er í gildi um lóðina og af meðalhófsreglu leiðir að sveitarfélaginu bar að leita leiða til að ná fram markmiðum um göngustíga og fráveitu með öðru og vægara móti en að meina kæranda að hagnýta sér lóð sína til byggingar. Væri það og andstætt jafnræðisreglu að synja einum lóðarhafa á deiliskipulögðu svæði um byggingarleyfi þar sem aðrir lóðarhafar hafa fengið byggingarleyfi í samræmi við gildandi skipulag án vandkvæða,“ segir úrskurðarnefndin og bætir við að synjunin hafi verið „ólögmæt og ekki reist á málefnalegum grundvelli“.

Úrskurðarnefndin fellir einnig úr gildi nýtt deiliskipulag frá í apríl á þessu ári þar sem umrædd byggingarlóð var felld út.

Hlédís Sveinsdóttir, einn eigenda Miðskóga 8, kveðst vonast til að fljótt og vel verði greitt úr málinu með núverandi meirihluta á Álftanesi.

„Auðvitað er draumurinn um að byggja framtíðarheimilið á lóðinni okkar á Álftanesi enn til staðar, þar liggja rætur mínar en föðurfólkið mitt bjó þar fram á seinni hluta 20. aldar og stofnaði meðal annars fyrsta barnaskóla landsins að Hausastöðum.“

Bæjarráðið hefur vísað byggingarleyfisumsókninni til nýrrar málsmeðferðar hjá skipulags- og byggingarnefnd sveitarfélagsins.gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×