Erlent

Heimsbyggðin standi saman gegn kreppu

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Michelle eiginkona hans heilsuðu Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Sarah konu hans á tröppunum framan við Downingstræti 10 í gær. Nordicphotos/afp
Barack Obama Bandaríkjaforseti og Michelle eiginkona hans heilsuðu Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, og Sarah konu hans á tröppunum framan við Downingstræti 10 í gær. Nordicphotos/afp

 Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatti í gær mestu efnahagsveldi heims til að snúa bökum saman til að mæta heimskreppunni sem á er skollin. „Við getum ekki mætt þessari áskorun nema með því að standa saman,“ sagði forsetinn eftir komu sína til Lundúna, þar sem leiðtogafundur svonefnds G20-hóps mestu efnahagsvelda heims hefst í dag.

Obama sagði ennfremur að fullyrðingar um að Bandaríkjamenn stæðu í deilum við aðrar þjóðir heims um þörfina á að dæla meiru af opinberu fé út í nafni kreppuvarna út í efnahagslífið væru „ýktar úr hófi“.

„Ég er algerlega sannfærður um að þessi fundur mun endurspegla gríðarlegan einhug um þörfina á samræmdum aðgerðum til að leysa þessi vandamál,“ sagði forsetinn á sameiginlegum blaðamannafundi með breska forsætisráðherranum Gordon Brown. Obama varaði einnig eindregið við því að þjóðir heims féllu í þá gryfju að grípa til verndarstefnu og viðlíka ráðstafana sem gerðu heimskreppuna á fjórða áratugnum dýpri og lengri en annars hefði orðið. „Það voru mistök sem við höfum ekki efni á að endurtaka.“

Seinna um daginn átti Obama tvíhliða fundi með Dmítrí Medvedev Rússlandsforseta og Hu Jintao Kínaforseta, auk þess að þiggja heimboð hjá Elísabetu II. Englandsdrottningu.

Eftir fundinn með Medvedev lýstu báðir forsetarnir því yfir að þeir vildu að nýtt samkomulag um takmarkanir á kjarnorku­vígvæðingu Rússlands og Bandaríkjanna yrði tilbúið þegar núgildandi samningur þar að lútandi rennur út í desember næstkomandi. Sá samningur, kallaður START, er frá árinu 1991, árinu sem Sovétríkin voru leyst upp og Rússland erfði vopnabúr þeirra.

Robert Gibbs, talsmaður Hvíta hússins, sagði að ekki hefði enn sem komið er verið samið um nýtt þak á fjölda kjarnaodda. Í núgildandi samningi eru þessi tvö stærstu kjarnorkuvopnabúr heims takmörkuð við á bilinu 1.700 til 2.200 kjarnaodda.

Fjöldamótmæli og öryggisráðstafanir vegna G20-fundarins voru mjög áberandi í bresku höfuðborginni í gær.

audunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×