Innlent

Pólska lánið situr fast vegna Icesave

Heimir Már Pétursson skrifar
Pólverjar setja ekki skilyrði um lausn Icesavedeilunnar áður en þeir greiða út lán sitt til Íslendinga, en greiða það hins vegar ekki út fyrr en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýkur endurskoðun sinni á efnahagsáætlun gagnvart Íslandi. Sjóðurinn ætlar síðan ekki að gera það fyrr en samið hefur verið um Icesave, þannig að lán Pólverja situr fast þangað til.

Pattstaðan er því enn hin sama í framkvæmd efnahagsáætlunar ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Icesave reynist alls staðar vera hindrun í vegi. Steingrímur J. Sigfússon og Jan Vincent-Rostowski fjármálaráðherrar Íslands og Póllands skrifuðu í dag undir 630 milljóna zlotý'a lán frá Pólverjum sem greitt verður út í þremur greiðslum sem tengjast þremur endurskoðunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands. Afstaða sjóðsins gagnvart Íslandi getur því fryst pólska lánið, þótt Pólverjar setji engin skilyrði um lausn Icesave deilunnar fyrir láninu.

Rætt hefur verið um allt að 500 milljón dollara lán frá Rússum og fundaði Steingrímur nú seinnipartinn með aðstoðar fjármálaráðherra þeirra í Istanbúl.

Hann segir að gott sé þó að eiga möguleika á láni frá Rússum, en ekki verði tekið meiri lán en þörf sé á. Það sem öllu virðist hins vegar skipta nú er að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ljúki fyrstu endurskoðun sinni af fjórum á efnahagsáætlun Íslands og fundar Steingrímur með forystumönnum sjóðsins á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×