Innlent

Lögbundni aldurinn í forgang

katrín jakobsdóttir
katrín jakobsdóttir

„Fimmtán einstaklingar sem eru að koma úr 10. bekk eru ekki búnir að fá pláss,“ segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra spurð hvernig staðan sé á umsóknum í framhaldsskóla landsins. Verið er að vinna í málum þeirra, að sögn Katrínar.

Í Fréttablaðinu í síðustu viku sagði Katrín að allir væru búnir að fá skólavist sem kæmu úr 10. bekk. Ekki væri búið að afgreiða umsóknir þeirra sem eldri væru.

Um 170 manns á aldrinum 16 til 18 ára hafa ekki fengið skólavist, að sögn Katrínar. Allir sem lokið hafa grunnskólaprófi eða eru 16 ára eiga rétt á að stunda nám í framhaldsskóla. Eiga þau rétt á því að stunda nám til 18 ára aldurs. „Við setjum lögbundna aldurinn í forgang,“ segir Katrín.

Ekki er hægt að segja til um hversu margir verða út undan úr hópnum eldri en 18 ára en Katrín segir að sá hópur sé töluvert stærri en hópur 16 til 18 ára umsækjenda. Alltaf er hópur af eldra fólkinu sem ekki kemst inn í framhaldsskólana.

„Fyrir þá eldri sem ekki komast inn munum við skoða leiðir varðandi símenntun og fullorðinsfræðslu til að finna úrræði þó fólkið komist ekki í hefðbundið framhaldsskólanám,“ segir Katrín.

Vegna skrifstofulokana í framhaldsskólum er mikill hægagangur á afgreiðslu umsókna í júlí, að sögn Katrínar. „Þetta mun ekki skýrast fyrr en í ágúst,“ svarar Katrín spurningunni hvenær ljóst verði hverjir komist í framhaldsskólana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×