Íslenski boltinn

Heimir: Hef aldrei lent í öðru eins

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Heimir Guðjónsson þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson þjálfari FH. Mynd/Vilhelm
Heimir Guðjónsson þjálfari FH var ánægður með að sitt lið héldi áfram að sækja þrátt fyrir að vera einum færri síðasta hálftímann í leiknum.

"Fylkisliðið er mjög vel skipulagt og með sterka liðsheild. Við vorum ekki á tánum fyrstu 25 mínúturnar. Þeir pressuðu okkur og unnu alla seinni bolta. Við vorum undir í baráttunni," sagði Heimir í leikslok.

"Eftir að við náðum að jafna okkur á því og fórum að láta boltann ganga í fáum snertingum síðustu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik þá fannst mér við vera líklegir og mér fannst við vera betri allan seinni hálfleikinn þó við værum einum færri í 35 mínútur. Mér fannst við alltaf vera líklegir til að skora. Matti Vill fór svo í hægri bakvörðinn og kláraði þetta fyrir okkur."

"Þetta er í annað skiptið sem þetta gerist. við komumst yfir í Eyjum eftir 11 mínútur og eftir 2 mínútur í kvöld og það er eins og menn haldi að þetta komi af sjálfu sér en það má ekki gleyma því að við vorum að spila gegn mjög góðu liði. Þeir eru baráttuglaðir, góð liðsheild og hjálpa hverjum öðrum vel en við sýndum það í seinni hálfleik þó við værum einum færri að við erum með betra lið."

"Ég hef ekki þjálfað lengi en ég hef aldrei lent í öðru eins að þurfa að nota þrjár skiptingar vegna meiðsla og þriðja skiptingin eftir 50 mínútur. Svo meiðist Hjörtur Logi sem er frábærlega þjálfaður leikmaður, hann tognar í nára, og þarf að fara af velli. við sýndum góðan karakter og héldum áfram og þó við værum einum færri þá pökkuðum við ekki vörn og héldum áfram að sækja."

Heimir óttast ekki að leikmenn sínir ofmetnist við góðan árangur og gott gengi.

"Við einbeitum okkur bara að okkur. Það eru aðeins tólf leikir búnir í þessu móti og tíu leikir eftir og eins við höfum oft sagt þá þurfum við að halda okkur niðri á jörðinni og taka einn leik fyrir í einu. Við höfum haldið dampi og sigrað ellefu leiki í röð í deildinni og ég held að við gerum það áfram," sagði Heimir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×