Innlent

Óeðlilegt hvernig lántakan þróaðist

Ráðhúsið í Reykjavík 
Fréttablaðið/GVA
Ráðhúsið í Reykjavík Fréttablaðið/GVA

„Við veltum vöngum yfir hvernig þetta mál þróaðist,“ segir Ragnar Lárus Kristjánsson, forstöðumaður hjá verðbréfafyrirtækinu Virðingu, sem Reykjavíkur-borg hafi falið að útvega fimm milljarða króna lánsfé gegn veði í fasteignum borgarinnar.

„Við vorum tilbúnir með þetta fjármagn samkvæmt þeim skilyrðum sem lagt var upp með en síðan breyttust forsendur á síðustu stundu hjá borginni og þeir ákváðu að fara aðra leið,“ segir Ragnar.

Eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu heldur minnihlutinn í borgarráði því fram að Virðing hafi getað selt borginni fyrir 17,5 milljónir króna sömu þjónustu og MB banki tók síðan 42,5 milljóna umsýsluþóknun fyrir.

Fjármálastjóri borgarinnar, Birgir Björn Sigurjónsson, segir hins vegar að Virðing hafi ekki getað selt samtals fimm milljarða króna skuldabréf á 4,4 prósenta vöxtum án þess að veð yrðu tekin í eignum borgarinnar.

Ragnar segir að haft hafi verið samband við Virðingu rétt fyrir borgarráðsfund og spurt hvort þeir lífeyrissjóðir sem fyrirtækið hafði útvegað sem lánveitendur myndu samþykkja að fá ekki veð í eignum borgarinnar. Því hafi sjóðirnir hafnað. „Síðan var ekkert haft samband við okkur aftur. Við töldum okkur vera að vinna að þessu verkefni og finnst óeðlilegt hvernig það þróaðist á síðustu stundu,“ segir Ragnar Lárus Kristjánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×