Erlent

Berst áfram gegn spillingu

Forsetinn á kjörstað ásamt eiginkonu sinni fréttablaðið/AP
Forsetinn á kjörstað ásamt eiginkonu sinni fréttablaðið/AP

Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu, þykir nokkuð öruggur með endurkjör eftir fyrstu talningu atkvæða úr forsetakosningum, sem haldnar voru í gær.

Samkvæmt þessari talningu var Yudhoyono kominn með 60 prósent atkvæða, en Megawati Sukarno-putri, fyrrverandi forseti, hlaut aðeins 17 prósent og Jusuf Kalla varaforseti kom í þriðja sæti með 13 prósent.

Yudhoyono hefur lagt áherslu á lýðræðisumbætur og þykir harður baráttumaður gegn hvers kyns spillingu. Sú barátta hans hefur þó farið fyrir brjóstið á mörgum valdamönnum innan lögreglunnar, þings og dómsvalds, þar sem spilling hefur verið útbreidd.

Yudhoyono vonast til að fá ótvíræðan stuðning almennings til baráttu sinnar, sem myndi styrkja hann í átökum við spillingaröflin.

Sjálfur varar hann fólk þó við að taka þessum bráðabirgðaniðurstöðum án fyrirvara: „Talningunni er ekki lokið, þótt fyrstu tölur bendi til sigurs í baráttu okkar,“ sagði hann.

Opinberar tölur verða ekki birtar fyrr en 27. júlí. Fái enginn frambjóðandi meira en 50 prósent atkvæða þarf að efna til annarrar umferðar kosninganna, þar sem tveir efstu verða í kjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×