Innlent

Rýming húsa vegna snjóflóðahættu á Bolungarvík

Veðurstofan í samráði við lögreglustjórann á Vestfjörðum hefur lýst yfir hættustigi á reit 4 í Bolungarvík og er rýming að hefjast.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Vestfjörðum. Þar segir einnig að ástæða rýmingarinnar sé vegna breytinga á veðri næsta sólarhringinn.

„Vaxandi norðaustanátt og él, 10-15, en 15-23 í nótt og snjókoma. Lægir talsvert um hádegi á morgun og snýst hann í sunnanátt með auknum hlýindum. Hiti um eða undir frostmarki. Með þeirri úrskomusöfnun sem hefur átt sér stað í Traðargili og þeirrar sem er að vænta í kvöld og nótt ber að rýma hús á reit 4. Fólk er beðið um að virða ákvarðanir um rýmingu og vera ekki á ferðinni um reit 4 fyrr en hættustigi er aflétt."

Á reit 4 eru eftirtalin hús: Ljósaland 2, Traðarland 18, 21, 22 og Tröð. Gert er ráð fyrir að umrædd hús verði mannlaus fyrir kl. 24:00 í kvöld.

Reitur 4 er fyrir neðan Traðargil í Bolungarvík og þar er verið að setja upp snjóflóðavarnargarð sem ekki er tilbúinn og því þarf að koma til rýmingar. Önnur hús í Bolungarvík eru utan reits 4 og því ekki á hættusvæði.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×