Innlent

Furðar sig á tillögu um niðurfellingu viðbótarstundar

Ráðuhús Reykjavíkur
Ráðuhús Reykjavíkur

Sigríður Pétursdóttir fulltrúi Vinstri grænna í menntaráði furðar sig á því aö lögð skuli fram tillaga um niðurfellingu viðbótarstundar fyrir börn í 2.-4. bekk grunnskólans, enda sé skýrt kveðið á um að standa skuli vörð um grunnþjónustuna í aðgerðaráætlun borgarinnar. Þetta kemur fram í bókun borgarfulltrúans.

Þar segir ennfremur að þó viðbótarstundin hafi verið hugsuð fyrir heimanám í eflingu list- og verkgreina í upphafi sé ljóst að hún hafi í flestum tilfellum verið notuð til almennrar kennslu og nýst hreinlega ágætlega.

„Því verður að líta svo á að hér sé um grunnþjónustu að ræða, sem börn í grunnskólum Reykjavíkur hafa notið um árabil. Þá er rétt að geta þess að niðurskurður um fimm kennslustundir á viku í þrjú ár samsvarar 540 kennslustundum hjá hverju barni (bekk/námshóp) sem er a.m.k. 15-16 vikna skólastarf í heildina," segir í umræddri bókun.

Með þessu muni börnin koma til með að njóta minni kennslu, verði af ákvörðuninni, auk þes sem um félagslega mismunun sé að ræða fyrir þau börn sem notið hafa heimanámsaðstoðar.

„Á viðsjárverðum tímum sem þessum er varasamt að gera svo viðamiklar breytingar á högum barna, enda mikilvægt að þau upplifi öryggi og festu, í skólanum sem annars staðar. Auk þess er ljóst að hagræðingin kemur til með að leiða til þess að ráðið verður í færri stöðugildi í grunnskólum borgarinnar næsta skólaár sem er í algjöru ósamræmi við markmið aðgerðaráætlunar borgarinnar um að standa vörð um störf á hennar vegum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×