Innlent

Verkefni sveitarfélaganna eru þjóðhagslega hagkvæm

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG. Mynd/Anton

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, segir að öll stærstu verkefni sveitarfélaganna eru þjóðhagslega hagkvæm. „Menntun, forvarnir, velferðar- og heilbrigðisþjónusta skilar sveitarfélögunum hraustari, hamingjusamari, afkastameiri og betur menntuðum íbúum, sem bæði leiðir af sér auknar skatttekjur og lægri útgjöld þegar til lengri tíma er litið," segir Sóley í pistli á heimasíðu sinni.

Borgarfulltrúinn segir hefðbundna aðferðafræði reikningsskila og fjárhagsáætlunargerðar gera skýran greinarmun á fjárfestingum og rekstri. Fjárfestingar snúist um að verja fjármunum í eitthvað sem hægt sé að eignfæra á móti en ekki sé gert ráð fyrir að verðmæti skapist gegnum rekstur.

„Þannig getur bókhald fjölskyldu litið vel út ef fjárfest er í nýjum bíl, en kostnaður vegna tónlistarskóla barnanna leiðir ekki til aukinna verðmæta hjá fjölskyldunni," segir Sóley.

Sóley telur að þegar harðni á dalnum í íslensku samfélagi sé brýnt að skoða það sem raunverulega skipti máli. „Er rekstrarniðurstaðan mikilvægari en velferð fólksins í samfélaginu? Eða er hægt að breyta reikningsskilareglum þannig að þær taki tillit til raunverulegra verðmæta? Mætti t.d. hugsa sér að þjóðhagslegur ávinningur yrði bókfærður með svipuðum hætti og afskriftir eru áætlaðar til lengri tíma?"

Setja verður í forgang fjárfestingar sem draga úr áhrifum kreppunnar, að mati borgarfulltrúans. „Við eigum að fjárfesta í menntun og sjálfsmynd barna og unglinga og atvinnuskapandi verkefnum sem leiða af sér hraustara, hamingjusamara, afkastameira og betur menntað samfélag.“

Pistil Sóleyjar er hægt að lesa hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×