Innlent

Lögreglan fann kókaín og stera

Fíkniefni fundust við húsleitir á tveimur stöðum í Grafarholti um helgina. Á öðrum staðnum var um að ræða hátt í 200 grömm af fíkniefnum, aðallega marijúana en einnig kókaín. Jafnframt var lagt hald á stera. Piltur um tvítugt hefur viðurkennt að eiga fíkniefnin en hann hefur áður komið við sögu hjá lögreglu í málum sem tengjast sölu og dreifingu fíkniefna. Á hinum staðnum fundust um 60 grömm af amfetamíni og einnig marijúana en í minna mæli. Eigandi fíkniefnanna er karl á þrítugsaldri en hann hefur sömuleiðis komið við sögu hjá lögreglu áður.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni nú í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×