Innlent

Hnefaleikasambandið ræðir mál barnaboxarans

Keppt í Ólympískum hnefaleikum. Myndin tengist ekki fréttinni.
Keppt í Ólympískum hnefaleikum. Myndin tengist ekki fréttinni.

„Við erum að ræða þetta innan nefndarinnar," segir Ágústa Hera Birgisdóttir, nefndarmaður í Hnefaleikanefnd ÍSÍ en málefni ungs boxara sem réðist á samnemanda sinn í Sandgerði er til skoðunar.

Boxarinn, í slagtogi við annan félaga sinn, gengu illilega í skrokk á fjórtán ára jafnaldra sínum í grunnskólanum í Sandgerði með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði, fékk heilahristing, missti heyrn á öðru eyra auk þess sem tönn losnaði í gómi hans.

„Það er bara ömurlegt að heyra þetta," segir Ágústa nefndin safnar nú gögnum um málið til þess að hægt sé að taka það fyrir.

Hún segir að svona lagað líðist ekki en á þessu verði tekið, enda um hreint og klárt brot að ræða að hennar sögn.

Þá sendi hnefaleikafélag Reykjaness frá sér eftirfarandi yfirlýsingu síðdegis:

„Hnefaleikafélag Reykjaness harmar það atvik sem átti sér stað þegar einn meðlimur félagsins varð uppvís að því að lenda í áflogum.

Umræddur meðlimur hefur verið fram til þessa virkur meðlimur og góður félagi í HFR, því hörmum við þetta mjög, en vonum eindregið að svo verði áfram.

Okkar afstaða er skýr til brota af þessu tagi. Við samþykjum ekki svona hegðun og lítur hnefaleikafélagið brot af þessu tagi mjög alvarlegum augum.

Hnefaleikafélagið mun vinna úr þessu máli í nánu sambandi við umræddan meðlim og foreldra hans.

Fyrir hönd stjórnar Hnefaleikafélags Reykjaness.

Guðjón Vilhelm."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×