Innlent

Þingmannalaus Borgarahreyfing fær tugi milljóna

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Þrír af þeim fjóru þingmönnum sem Borgarahreyfingin hlaut í kosningunum í vor stofnuðu nýjan flokk fyrir helgi. Mynd/Vilhelm
Þrír af þeim fjóru þingmönnum sem Borgarahreyfingin hlaut í kosningunum í vor stofnuðu nýjan flokk fyrir helgi. Mynd/Vilhelm

Borgarahreyfingin mun að öllum líkindum fá á þriðja tug milljóna á ári hverju út kjörtímabilið í opinber fjárframlög þrátt fyrir að vera án þingmanna. Formaður flokksins segir að peningarnir muni koma að góðum notum.

Þeir stjórnmálaflokkar sem fengu að minnsta kosti einn þingmann eða meira en 2,5% atkvæða í síðustu þingkosningum fá úthlutað árlega fé úr ríkissjóði. Fjárhæðinni er úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn en í fjárlögum þessa árs er heildarupphæðin sem rennur til stjórnmálaflokkana 371,5 milljónir króna. Borgarhreyfingin hlaut 7,22% atkvæða í þingkosningunum 25. apríl síðastliðnum sem tryggir flokknum tæplega 27 milljónir króna á ári haldist heildarupphæð fjárframlaga til stjórnmálaflokka óbreytt.

„Það er liggur ljóst fyrir að Borgarahreyfingin lagði í kostnað við að koma þessum þingmönnum á þing og það er klárt að þessir fjármunir munu renna til hreyfingarinnar," segir Valgeir Skagfjörð, formaður Borgarahreyfingarinnar. Hann á von á því Alþingi dragi úr fjárframlögum til stjórnmálaflokka á næstunni vegna stöðu efnahagsmála.

Engu að síður segir Valgeir að peningarnir muni koma að góðum notum.

„Við erum með grasrótarstarf og stjórnmálastarf og það er ljóst að það koma aðrar kosningar. Við munum nýta þessa fjármuni til að reka hreyfinguna og gera hana öfluga."

Hreyfingin fær einnig opinbert fé



Borgarahreyfingin fékk fjóra þingmenn kjörna í kosningunum í vor en þeir hafa nú allir sagt skilið við flokkinn. Fyrir helgi tilkynntu þrír þeirra um stofnun nýs flokks sem fékk nafnið Hreyfingin. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir að það hafi ekki áhrif á fjárframlag til þingflokks þingmannanna.

Fjárframlög úr ríkissjóði renna annars vegar til stjórnmálaflokka og hins vegar þingflokka. Verði nýir þingflokkar til, eins og Hreyfingin, fá þeir úthlutað upphæðum úr ríkissjóði í samræmi við fjölda þingmanna. Upphæðin er þó mun minni en sú sem rennur beint til stjórnmálaflokkanna. Hún er 65 milljónir samkvæmt fjárlögum 2009 og skiptist á milli þingflokka eftir ákveðnum reglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×