Innlent

Gróflega snúið út úr ummælum forsetans

Björgvin Guðni Sigurðsson
Björgvin Guðni Sigurðsson

Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingarinnar segir að snúið hafi verið út úr orðum forseta Íslands í þýskum fjölmiðlum. Forsetinn hafi ekki farið út fyrir valdsvið sitt enda hafi hann skýrt það mál sitt mjög vel. Rætt var um ummæli forseta á Alþingi í dag en Björgvin sagði forsetann hafa staðið sig framúrskarandi vel og þvert á móti hafi verið snúið gróflega út úr ummælum hans.

Það vakti athygli að þegar Björgvin hafði lokið þessum ummælum sínum um Ólaf Ragnar, labbaði hann úr pontu og blikkaði þingmann út í sal og brosti.

Annars voru nokkuð fjörugar umræður um ríkisbankana þar sem Ármann Kr Ólafsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins fór mikinn og talaði um að ekki væri skynsamt að skipta um hest í miðri á. Upplausnarástand væri í bankakerfinu eftir að formenn bankaráðs Nýja Glitnis og Nýja Kaupþings sögðu af sér í gær. Einnig gagnrýndi hann ráðningu bankaráðs á gömlum vini Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í bankastjórastól Landsbankans.

Össur Skarphéðinsson mætti sposkur upp í pontu og sagði að hvergi væri upplausnarástand nema innan Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði ásakanir Ármanns beinast að fyrrverandi fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen.

Þessar ákvarðanir hafi verið teknar við ríkisstjjórnarborð fyrrverandi ríkisstjórnar og einungis væri verið að framfylgja ákvörðun fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins með því að auglýsa stöður bankaastjóranna.

„Háttvirtur þingmaður Ármann Kr. Ólafsson deilir á þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn mótaði og það var fyrrverandi fjármálaráðherra sjálfur sem ræddi við formenn bankaráðanna um að auglýsa ætti stöðru bankastjóranna," sagði Össur.

Þessi ummæli Össurar vöktu nokkra athygli þingmanna sem gripu fram í fyrir utanríkisráðherra þegar hann furðaði sig á ummælum þingmannsins.

„Einn af greindustu þingmönnum frjálslynda flokksins kallar hér fram að ástæðan sé sú að það sé að koma prófkjör í Sjálfstæðisflokknum," sagði Össur og fékk hlátur úr sal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×