Erlent

Harmar að hafa aukið á hneyksli

Silvio Berlusconi Forsætisráðherrann þykir hafa full mikinn áhuga á ungum stúlkum.  Fréttablaðið/AFP
Silvio Berlusconi Forsætisráðherrann þykir hafa full mikinn áhuga á ungum stúlkum. Fréttablaðið/AFP

Kaupsýslumaður sem réði ungar konur til að fara í veislur heima hjá Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur beðist afsökunar á því að leggja til efni í nýtt hneykslismál.

Kaupsýslumaðurinn, Giampaolo Tarantini, sagði í viðtali við ítölsku fréttastöðina ANSA að hann hefði einungis greitt konunum ferðakostnað og kostnað vegna dvalarinnar. Sagði hann að Berlusconi hefði ekki vitað af því að konunum væri greitt og harmaði að það sem hefði verið vel meint af hans hálfu væri orðið að hneyksli.

Áhugi Berlusconis á yngri konum komst í fréttirnar á dögunum þegar eiginkona hans fór fram á skilnað vegna meintra áforma flokks hans um að stilla ungum fegurðardrottningum upp á framboðslista sinn til Evrópuþingsins og hefur Tarantini verið í miðju þessara ásakana.

Þrjár konur hafa komið fram í ítölskum dagblöðum og sagt að Tarantini hafi boðið þeim í veislur Berlusconis. Fengu tvær þeirra greiddar þúsund evrur auk þess sem þeim var boðið sæti á framboðslista í kosningum á svæðinu Bari á Ítalíu, en hvorug þeirra vann reyndar. Þeirri þriðju var ekkert greitt en fékk hún þó skartgripi að gjöf.

- mmf




Fleiri fréttir

Sjá meira


×