Erlent

Norður-Kóreumenn skutu fjórum flaugum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Skotpallur í Norður-Kóreu.
Skotpallur í Norður-Kóreu.

Norður-Kóreumenn skutu fjórum skammdrægum eldflaugum frá austurströnd landsins í tilraunaskyni í gær.

Það var suðurkóreska fréttastofan Yonhap sem greindi frá skotunum en í allt var fjórum flaugum skotið á loft síðdegis í gær að kóreskum tíma. Þetta kemur ekki á óvart enda höfðu Norður-Kóreumenn fyrir nokkrum vikum varað sjófarendur við að vera á ákveðnum svæðum á Japanshafi vegna tilraunanna.

Spennan á Kóreuskaganum hefur stigmagnast undanfarna mánuði en á tímabili var talið að norðanmenn hygðust skjóta langdrægri eldflaug í átt að Hawaii á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna sem er á morgun. Engin merki sjást þó um að slíkt sé í vændum enda hefðu gervihnattamyndir að líkindum sýnt glögglega undirbúning slíks skots.

Greiningaraðilar segja ekki ástæðu til að hafa sérstakar áhyggjur af flaugunum sem skotið var í gær og mætti flokka aðgerðirnar undir hefðbundnar heræfingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×