Lífið

Eurovisionstjarna auglýsir morgunkorn

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jóhanna spreytir sig á þessum vettvangi, hún lék í ostaauglýsingu fyrir nokkrum árum. Fréttablaðið/Arnþór
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jóhanna spreytir sig á þessum vettvangi, hún lék í ostaauglýsingu fyrir nokkrum árum. Fréttablaðið/Arnþór

„Þetta hefur verið uppáhaldsmorgunkornið mitt frá því ég var krakki þannig að ég vildi gjarnan taka að mér að auglýsa vöruna," segir söngkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, en hún leikur í nýrri auglýsingu fyrir Havre Fras-morgunkornið.

Tökur á auglýsingunni fóru fram á fimmtudaginn var og að sögn Jóhönnu gengu þær hratt og vel fyrir sig. „Þeir sem stóðu að auglýsingunni voru svo miklir fagmenn; búnir að skipuleggja tökudaginn mjög vel þannig að þetta gekk allt áfallalaust fyrir sig," segir hún. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Eurovision-stjarnan spreytir sig á þessum vettvangi því fyrir nokkrum árum lék hún í ostaauglýsingu í sjónvarpinu.

Í auglýsingunni má sjá Jóhönnu sinna sínum daglegu störfum. „Auglýsingin á að minna fólk á hversu mikilvægt það er að borða hollan og góðan morgunmat svo maður hafi orku til að gera allt sem maður þarf að gera yfir daginn," segir hún.

Söngkonan unga hefur stundað hestamennsku frá barnsaldri og í auglýsingunni má meðal annars sjá hana bregða sér á hestbak. Hesturinn var fenginn að láni hjá hestaleigunni Íshestum, en þar hefur Jóhanna unnið síðastliðin þrjú sumur. „Mínir hestar eru allir á sumarbeit þannig að ég fékk eftirlætishestinn minn að láni hjá Íshestum í staðinn," segir Jóhanna glöð í bragði. Aðspurð segist hún þó ekki ætla sér að skipta á söngnum og leiklistinni í bráð, „Þetta eru ekki ólík listform og það gæti verið gaman að kynnast leiklistinni betur einhvern tímann í framtíðinni." segir hún að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.