Innlent

Starfshópur um endurskoðað fiskveiðistjórnunarkerfi skipaður

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, verður formaður starfshópsins.
Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, verður formaður starfshópsins. Mynd/GVA

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða skipað starfshóp til þess að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarinnar. Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, verður formaður starfshópsins.

Fram kemur í tilkynningu að verkefni starfshópsins verður að skilgreina helstu álitaefni sem fyrir hendi eru í löggjöfinni og lýsa þeim. „Hann láti vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta, þannig að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, fiskveiðar verði stundaðar með sjálfbærum hætti og sem víðtækust sátt náist um fiskveiðistjórnunina meðal þjóðarinnar."

Starfshópnum er gert að hafa sem víðtækast samráð við aðra aðila. Honum er gert að skila af sér álitsgerð fyrir 1. nóvember næstkomandi.

„Á grundvelli vinnu starfshópsins og þeirra valkosta sem hann bendir á, mun ráðherra ákveða frekari tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×