Innlent

Fleiri matjurtagarðar í sumar

Matjurtargörðum í Reykjavík verður fjölgað sumarið 2009. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar segir að aukinn áhugi sé á görðunum, bæði vegna efnahagsástandsins og almenns áhuga á grænmetisræktun.

Þorbjörg Helga býst við að fleiri hafi áhuga á matjurtargörðum borgarinnar næsta sumar. Þeim munu standa til boða garðsvæði í Skammadal, lausir garðar í nokkrum skólagörðum ásamt skólagörðunum í Elliðaárdal neðan Stekkjarbakka sem ekki verða nýttir undir skólagarða í sumar.

„Matjurtargarðar á vegum borgarinnar eru að mínu mati spennandi verkefni til framtíðar og ég vona að þetta verði vinsæl iðja því hér er um holla útvist að ræða og búbót fyrir fjölskyldur í borginni," segir Þorbjörg Helga í tilkynningu. Hún segist einnig sjá fyrir sér þróun á þessu verkefni í samstarfi við áhugafélög og fagmenn.

Garðyrkjudeild Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar leigir út garðlöndin til borgarbúa, innheimtir leigugjöld og sér um eftirlit yfir ræktunartímann. Hægt er að panta garða á skrifstofu sviðsins í Borgartúni 12-14 eða í síma 411-8501. Garðarnir eru leigðir út á kostnaðarverði, sem í ár er 4.400 kr. fyrir garðland en 5.200 kr. fyrir skika undir garðhýsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×