Borgarholtsskóli í Grafarvogi var rýmdur fyrir stundu og er fjölmennt lögreglulið statt við skólann núna. Að sögn vaktstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er um sprengjuhótun að ræða.
Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að sérfræðingar í sprengjuleit á vegum ríkislögreglustjóra muni leita að sprengjum í skólanum samkvæmt hefðbundnu fyrirkomulagi.
Samkvæmt upplýsingum Vísis eru um 10 til fimmtán lögreglubílar og -hjól við skólann. Þá er einn dælubíll frá slökkviliðinu þar og tveir sjúkrabílar á leiðinni.